torsdag den 4. september 2014

Um mig....

Ég er leikskólakennari sem vinn hjá Hjallastefnunni á leikskólanum Ásum í Garðabæ.  Þetta blogg er um vangaveltur mínar í sambandi við uppeldismál, Hjallastefnuna og allt annað sem mér dettur í hug.

Ég útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands árið 2005 sem leikskólakennari.  En ég tók síðasta árið sem skiptinemi við danskan uppeldisháskóla.  Í kjölfarið af því fór ég svo í diplomanám í DPU (Danmarks Pædagogiske Universitet) þar sem ég stúderaði almenna uppeldis og menntafræði með áherslu á lestur og lestrarörðuleika.

Árið 2007 fluttum við aftur til Íslands og þá fór ég að vinna á Ásum í Garðabæ, en það er Hjallastefnuleikskóli. Ég hafði alltaf verið forvitin um stefnuna, en ég lærði lítið um hana í leikskólakennaranáminu, það var erfitt að komast að sem nemi þar og þ.a.l vissi ég lítið út í hvað ég var að fara. En ég var ótrúlega ánægð með að kynnast því flotta starfi sem er í Hjallastefnunni, eftir að hafa verið þar í 3 ár, venti ég kvæði mínu í kross og fór að vinna í sérkennslu í grunnskóla.  Það var frábær tími og það var virkilega gaman að kynnast starfi í "venjulegum" grunnskóla.

En oft er talað um að uppruninn kalli á mann og það gerði hann svo sannarlega í mínu tilfelli og núna er ég aftur farin að vinna með litlu börnin í leikskólanum og það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi starf.

Auk þess að vera leikskólakennari er ég líka fjölskyldukona. En ég er gift honum Gumma og við eigum saman 3 drengi og 1 hund.  Þannig að það er líf og fjör í kringum okkur.